FRÉTTABLAÐIÐ

Vísir, 24. Júlí 2006 12:30

Vampíran Nash: hannar vígtennur fyrir Íslendinga

Fjölskyldan hrædd við brjálæðinga

Nash Heitir réttu nafni Jonaðan Pétursson og vissi að Leifur Eiríksson hefði fundið Ameríku. Hann heimtaði því að fá myndina af sér tekna fyrir framan kappann hjá Hallgrímskirkju…..

Vígtennur eins og þær sem varúlfar og vampírur skarta eru í hugum flestra eitthvað sem á bara heima í kvikmyndum en hér á landi er staddur sérfræðingur í vígtannagerð. Sá heitir Nash og geta áhugasamir kynnt sér verk hans hjá húðflúrastofunni Stúdíó 54 þar sem Fjölnir Bragason ræður ríkjum. Reyndar er þetta ákaflega viðkunnalegur náungi sem býr rétt fyrir utan New York. Hann talar hratt en hefur augljóslega gaman af því að vera hér á Íslandi. „Ég er hér til að kynna vígtennur sem líkamsskraut,” segir Nash en viðurkennir að þetta sé ekki jafn vinsælt og götun eða húðflúr. „Þetta hefur samt sem áður verið að ryðja sér rúms og er orðið nokkuð vinsælt á alþjóðavísu,” bætir Nash við og segir að varúlfstennurnar séu eftirsóttastar.

Nash hefur verið á ferðalagi að undanförnu og meðal annars komið við í Ástralíu auk þess að hafa staldrað við í flestum ríkjum Bandaríkjanna. Reyndar hófst þetta tann-ævintýri Nash fyrir algjöra slysni því hann segist fyrst og fremst vera tónlistamaður. „Ég var með langar tennur þegar ég var yngri og fór til tannlækna sem reyndu að laga þær. Þegar ég var síðan að spila á tónleikum sá ég strák með svona tennur og fór til tannlæknis sem útbjó svona handa mér. Móður minni var svo illa við þær að hún eyðilagði þær eina nóttina. Það stöðvaði mig þó ekki, ég fékk efnið hjá tannlækni og ég bjó bara til nýjar. Vinum mínum fannst þetta töff og svo byrjaði boltinn að rúlla,” útskýrir Nash og segir að fjölskyldunni sinni hafi ekkert litist á þessa atvinnugrein hans til að byrja með. „Þau voru skíthrædd við allt þetta brjálaða fólk sem ég kynni að komast í tæri við,” segir Nash en að gefnu tilefni skal tekið fram að tennurnar eru gerðar úr plasti og því þurfa viðskiptavinirnir ekki að hafa áhyggjur af því að þeir verði með vampírutennur til eilífðar.

Nash er orðinn nokkuð þekktur fyrir handbragð sitt og hafa kvikmyndaframleiðendur haft samband við hann þegar gera á vampírumyndir. „Það eru aðallega tæknibrellumeistararnir sem koma að máli við mig og vilja fá ráð,” útskýrir Nash en vill þó sem minnst gera úr þessu sambandi sínu við Hollywood.

Nash fer héðan á þriðjudaginn en er staðráðinn í að koma aftur hingað enda segist hann kunna ákaflega vel við land og þjóð. „Ég er hvorki giftur né á börn en held að ég hafi fundið rétta staðinn til að leita.”

 

Copyright © 2006 Vísir. All rights reserved.